Stjórnlagaráð afgreiðir tillögur um fyrirkomulag kosninga til Alþingis

27.06.2011 16:32

Stjórnlagaráð afgreiðir tillögur um fyrirkomulag kosninga til Alþingis

Stjórnlagaráð afgreiddi tillögur C-nefndar Stjórnlagaráðs inn í áfangaskjal um fyrirkomulag kosninga til Alþingis á 14. ráðsfundi. Í tillögunni kemur fram að atkvæði kjósenda á landinu vegi alls staðar jafnt en í lögum megi mæla fyrir um að binda megi allt að 2/5 hluta þingsæta við tiltekin kjördæmi. Kjósendur geti valið með persónukjöri hvaða frambjóðendur á landinu sem er, óháð því hvort þeir bjóða sig fram á kjördæmalistum, landslistum eða einstaka framboðslista. Í þessu felst reginmunur frá því kerfi sem sem nú er við lýði, þar sem kjósendur geta aðeins merkt við frambjóðendur eins lista og aðeins kosið frambjóðendur í eigin kjördæmi.  Lagt er til að  í lögum skuli veita framboðum heimild til að tryggja að hlutfall karla og kvenna meðal þeirra sem ná kjöri af þeirra listum sé sem jafnast. Loks kemur fram að kjördæmi skuli flest vera átta en fæst eitt. Upplýsingar um framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem bjóða sig fram í almennum kosningum skuli vera aðgengilegar almenningi svo fljótt sem auðið er. Hægt er að gera athugasemdir við allar tillögur Stjórnlagaráðs í áfangaskjali ráðsins.

 

 

 

Fara í fréttalista