Tillögur um sveitarstjórnarmál, þjóðaratkvæðagreiðslur og utanríkismál á 13. ráðsfundi

16.06.2011 10:19

Tillögur um sveitarstjórnarmál, þjóðaratkvæðagreiðslur og utanríkismál á 13. ráðsfundi

Nefndir Stjórnlagaráðs leggja fram tillögur til kynningar og afgreiðslu inn í áfangaskjal ráðsins á 13. ráðsfundi sem hófst kl. 10 í morgun.  

B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir nýjan kafla um stöðu sveitarfélaga í stjórnarskránni. Þar er tillaga um að stjórnarskrárbinda svokallaða nálægðarreglu, en hún kveður á um að þeir þættir opinberrar þjónustu sem betur þykir fyrir komið í héraði skuli vera á hendi sveitarfélaga. Lagt er til nýmæli um rétt íbúa sveitarfélags til að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess og kveðið er á  um beina samráðsskyldu, við sveitarstjórnir og samtök þeirra, við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga. Loks leggur nefndin til að embætti umboðsmanns Alþingis verði stjórnarskrárbundið.

C-nefnd leggur fram til afgreiðslu inn í áfangaskjal tillögur að kafla um lýðræðislega þátttöku almennings. Þar er m.a. lagt til að Alþingi skuli bera nýsamþykkt lög undir þjóðaratkvæði ef tíu af hundraði kjósenda krefjast þess. Einnig skal Alþingi láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin málefni sem varða almannahag ef tíu af hundraði kjósenda krefjast þess. Þó er ekki hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni, lög um ríkisborgararétt og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum. Lagt er til að ⅔ hluti Alþingis þurfi til að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskrá. Nái frumvarpið samþykki skal það borið undir þjóðaratkvæði.

C-nefnd leggur jafnframt fram til afgreiðslu inn í áfangaskjal tillögur að kafla um utanríkismál. Lagt er til skýrara ákvæði um meðferð utanríkismála, aukið hlutverk utanríkismálanefndar og áskilnað um samþykki þings um stuðning við hernaðaraðgerðir. Einnig er mælt fyrir um heimild að gera alþjóðasamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu, en slíka samninga þurfi að bera undir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

Hægt er að gera athugasemdir við allar tillögur í áfangaskjali ráðsins.

 

Fara í fréttalista